Heimalagað pasta með spínati

Svona gerum við er við hengjum okkar pasta.

Fyrsta pastalögun hússins úr Marino hveiti tókst mjög vel. Við notuðum eingöngu harða hveitið með virðulega nafnið, Sfarinato Grano Duro „Senatore Capelli“, en senatör sérnefnið vísar í ákveðið yrki sem Marino feðgar nota í þetta hveiti.

Við ákváðum að nota eingöngu egg með hveitinu, ekkert vatn. Nákvæmar mælingar fóru ekki fram í upphafi en okkur reiknaðist sem svo að þyngd eggjanna hafi verið u.þ.b. 250 grömm (við notuðum 6 lítil landnámshænuegg frá Húsatóftum) og hveitið sjálft um 350 grömm. Aðalatriðið er að finna að deigið sé vel þétt og hnoða síðan vel og lengi þar til mýkist og verður meðfærilegra.

Við bjuggum til tagliatelle úr deiginu og fórum niður í næst fínustu stillingu á pastagerðarvélinni. Það reyndist vera mjög passleg þykkt því pastað var mjög létt og fínlegt en hélt þó vel saman.

Suðutími var eldsnöggur, líklegast ekki meira en svona 5 mínútur, og við settum vænan slurk af Reykjanessalti í pottinn.

Niðurstaðan var ánægjuleg, án efa best heppnaða, heimagerða pastað sem við höfum gert. Það hefði nægt að setja ólífuolíu og hvítlauk á pastað og leyfa því að njóta sín nánast eitt og sér en við gerðum einfalda pastasósu þar sem við vorum nýbúin að fá girnilegt, lífrænt spínat frá Ingólfi og Sigrúnu á Engi.

Bræddum góðan slatta af smjöri á pönnu og kreistum heilan hvítlauk út á (u.þ.b. 8-10 rif) ásamt fínsaxaðri steinselju frá Hveratúni. Eftir nokkrar mínútur settum við innihald úr tveimur spínatpokum frá Engi á pönnuna og leyfðum að taka sig í 3-4 mínútur á pönnunni. Ekki flóknara en svo fyrir utan smávegis salt (og ólífuolía ekki langt undan).

Einfaldur réttur þar sem bæði pasta og spínat fær að njóta sín.

 

Reykjavík,

Fjöldinn allur af góðu fólki fylgir Frú Laugu
á Facebook, Twitter og Instagram.