Frú Lauga sýslar með góðan mat og fær afurðir eftir föngum á hverjum degi. Henni er annt um það sérstaka og vill koma því á framfæri til þín

Grænmeti og ávextir

Á hverjum degi skimar Frú Lauga eftir besta grænmetinu. Það kemur frá íslenskum framleiðendum sem Frú Lauga þekkir og er í beinu sambandi við. Íslenska vatnið tryggir gæðin í grænmetinu.

Ávextir sem Frú Lauga býður koma víða að. Eplin frá Kent á Englandi eru ótrúlega ljúffeng og plómur og sítrusávextir frá Ítalíu eru afbragð. Framboð af þessum ávöxtum fer eftir árstíma. En það er alltaf spennandi að kíkja og sjá hvað er í boði.

Frú Lauga flytur sjálf inn sinn hvítlauk, bæði rauðan og hvítan, beint frá Ítalíu. Hann þykir einkar ljúffengur og bragðmikill.

Olíur, pestó og krukkuvara

Frú Lauga er þekkt fyrir gæða ólívuolíur. Þar ber hæst olíuna frá Sikiley, frá Valdibella. Olían er seld í lausu og geta viðskiptavinir Frú Laugu komið með sínar flöskur og fyllt á. 
Ólívuolíur á flöskum eru einnig til í miklu úr vali, frá Frakklandi, Spáni og Ítalíu.

Pestó og sultur eru margs konar bæði frá íslenskum framleiðendum en einnig innflutt frá Ítalíu. Þar er sjón sögu ríkari.

Ávextir í sírópi eða víni. Plómur, kirsuber, perur, vínber og apríkósur í legi er mjög falleg og gómsæt vara. Krukkurnar eru misjafnar að stærð og allt upp í 4,4 kg. Einstaklega falleg gjafavara og skemmtilegur eftirréttur. Hentar vel með rjóma eða ís. Ricotta ostur er líka skemmtileg pörun við þetta lostæti.

Mjólkurvörur og ostar

Mjólkin frá Bióbú ásamt rjóma og jógúrt er vinsæl hjá Frú Laugu. Bióbú mjólkurafurðir eru lífrænt vottaðar og mörgum líkar einstaklega vel við ófituspengda mjólk. Vörur frá Örnu eru einnig oft á boðstólum.

Þegar kemur að ostum býður Frú Lauga upp á mikið úrval. Geitahvítmygluostur og geitafeti frá Jóhönnu á Háafelli er vinsæl vara sem á ekki sinn líka á Íslandi. Frú Lauga flytur inn osta frá Ítalíu og þar er parmesan osturinn frá Reggiano í uppáhaldi. Einnig er á boðstólum sauðaostur og geitaostur frá Englandi og Ítalíu. Svo eru Litla ostagerðin í Kópavogi að framleiða fyrir Frú Laugu marga spennandi osta. Mozzarella, scamorza, reyktan scamorza, ricotta og ricotta salata. Ekki má gleyma havartí ostinum frá Biobú sem er 32% feitur og einkar ljúffengur. Með ostunum er hægt að fá margs konar pestó og sultur.

Umbúðalaust og matarsóun 

Frú Lauga vill vera umhverfisvæn og býður bara maíspoka sem brotna niður og bréfpoka. Þá er einnig boðið upp á mikið úrval af margnota innkaupapokum.

Allt grænmeti og ávextir sem gerlegt er að selja í lausu er selt með þeim hætti. Hins vegar er það svo að sumt grænmeti þolir ekki að liggja óvarið. Uppgufun er mikil og þá verður grænmetið slappt og ekki falleg söluvara. Því verður sumt grænmeti að vera í umbúðum þannig að það endist. Annars aukast líkur á að grænmetið skemmist og það finnst Frú Laugu erfitt og fátt fer meira fyrir brjóstið á henni en matarsóun.

En aðrar umbúðir eru í boði en plast. Frú Lauga gerir túnfisksalat og hummus, þegar hún er í stuði. Þessar vörur eru geymdar í boxum sem eru gerð úr sterkju úr sykurreyr. Þetta eru ílát sem brotna niður og mega fara til moltugerðar.

Gjafabréf frú Laugu eru alltaf vinsæl

Margir kjósa að velja ekki í pakka fyrir vini eða ættingja, heldur miklu frekar að kaupa gjafabréf og gefa.

Frú Lauga tekur þá vel á móti eiganda bréfsins og leiðir hann um verslunina sem er lítill ævintýraheimur.
Gjafabréfið er ávísun á upplifun og ánægju.

Hafðu samband við okku í síma 534 7165 eða sendu tölvupóst og við getum sent gjafabréf hvert á land sem er.  

Brauð og flatkökur

Nýtt brauð er í boði alla daga í Frú Laugu.
Súrdeigsbrauðin frá Sandholti eru volg þegar þau koma snemma dags.

Nýbakaðar flatkökur eru ávallt til og lífrænu brauðin frá Grímsbæ eru dásamleg.

Litla brauðstofan í Hveragerði slær annan tón og býður upp á þýsk og frönsk brauð að ógleymdu rúgbrauðinu sem sætt er með döðlum en ekki sykri.

Glútenlausar vörur

Sífellt fleiri leita eftir glútenlausum vörum. Þar hefur Frú Laugu stóraukið vöruúrval.

Allt frá fiskibollum og brauðum yfir í svartar núðlur og súkkulaði.